Vladímír Pútín stappaði stálinu í samlanda sína á árlegum blaðamannafundi sínum í Moskvu í dag.

Auk þess að tala um efnahag Rússlands og aðgerðir rússneska seðlabankans gerði hann samskipti sín við Vesturlönd að umtalsefni. Hann fór þar hörðum orðum um þau og sakaði þau um að reyna að komast yfir náttúruauðlindir Rússlands. Núverandi efnahagsástand væri birtingarmynd þess en það væri jafnframt „gjald okkar fyrir sjálfstæði og fullveldi."

Olíuverð helsti sökudólgurinn

Pútín ræddi einnig ástæður efnahagsörðugleika Rússa. Sagði hann þau vera vegna „ytri aðstæðna," sem lægju helst í lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu. Sökin væri þú að hluta til innlend og fælist einnig í því að Rússar hefðu ekki eins fjölbreytt hagkerfi og æskilegt væri.

„Það er óhjákvæmilegt að ástandið komist aftur í fyrra horf" og að efnahagurinn taki við sér þegar Rússland hættir að vera jafn háð orkuiðnaði og raun ber vitni. „Lífið sjálft mun þvinga okkur til þess," sagði Pútín og átti hann þá við að lægra orkuverð myndi ýta undir fjárfestingu í geirum sem höfðu hingað til verið vanræktir.

Wall Street Journal greinir frá.