Vladimír Pútín, forseti Rússlands, gagnrýndi harðlega í dag að ekkert samráð hefði verið haft við stjórnvöld í Rússlandi um álagningu sérstaks einskiptiskatts á innistæður á Kýpur. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Nicosia-bankinn telur að skatturinn muni kosta rússneska innistæðueigendur um tvo milljarða evra. Ef það er rétt munu Rússar bera um um 35% af skattinum þó svo þeir eigi mun lægra hlutfall innistæðna, þar sem skatturinn er hæstur á innistæður yfir 500 þúsund evrum, eins og greint var frá fyrr í morgun .

Rússar hafa haft mikil tengsl við eyjuna og hafa í raun haldið henni á floti frá því að fjárkreppan hófst árið 2008.

Umræðum í þinginu frestað

Umræðum í kýpverska þinginu um björgunaraðgerðirnar og einskiptiskattinn hefur verið frestað. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.