Stefnt er að því að Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO og Rússland ljúki viðræðum um aðild Rússlands að stofnuninni næsta sumar. Við blasir hins vegar að talsverð vinna er framundan ef takast á að ná því markmiði segir í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, sem leiðir viðræðurnar fyrir hönd WTO, segir í Stiklum að upphaflega hafi verið stefnt að því að ljúka aðildarviðræðunum fyrir ráðherrafund stofnunarinnar sem haldinn verður í næsta mánuði í Hong Kong. Það markmið muni því miður ekki nást þó viðræðurnar hafi skilað umtalsverðum árangri.

"Ágreiningur milli einstakra aðildarríkja WTO og Rússa er einfaldlega of mikill á ákveðnum sviðum og ekki hefur tekist að brúa það bil nægilega til að það takist að ljúka viðræðunum fyrir ráðherrafundinn í desember. Erfið álitaefni hafa t.d. snúist um vernd hugverka, opnun markaða í Rússlandi fyrir fjármálaþjónustu, tollamál, verðmyndun í orku, landbúnaðarmál, tæknilegar viðskiptahindranir og fleira,? segir Stefán Haukur.

Rússnesk stjórnvöld hafa gefið til kynna að þau vilji ljúka aðildarviðræðunum efnislega fyrir næsta sumar, áður en átta helstu iðnríki heims koma saman til fundar í Rússlandi í júlí á næsta ári. Mikill pólitískur vilji er fyrir því að Rússar fái aðild að WTO sem fyrst, en það er talið óæskilegt að Rússland, sem eitt af helstu iðnríkjum heims, standi fyrir utan hið alþjóðlega viðskiptakerfi WTO. Jafnframt er ljóst að mikil vinna er eftir, enda þurfa Rússar að undirgangast verulegar skuldbindingar á öllum sviðum efnahags- og viðskiptamála og breyta lögum og reglum í samræmi við það segir í Stiklum.