Mikil sveifla var á bandarískum mörkuðum í dag. Nasdaq vísitalan lækkaði örlítið eða um 0,21% og stendur vísitalan í 2499.46 stigum. Dow Jones vísitalan hækkaði þó örlítið eða um 0,21% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,32%.

Standard & Poor's 500 vísitalan virðist vera að ná sér á strik eftir verstu byrjun ársins frá árinu 2000 að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Nasdaq vísitalan var nálægt því að fara upp fyrir núllið. Vísitalan hækkaði strax við opnun í morgun en lækkaði fljótlega aftur. Síðan tók hún aftur kipp þangað til að tilkynnt var að olíuverð væri komið niður í 95.09 bandaríkjadali. Um kl. 15 að staðartíma í New York var lækkunin orðin um 1,37% og fór vísitalan hækkandi eftir það. En sem fyrr segir hafði vísitalan lækkað í lok dags.

The Daily Telegraph greindi frá því í dag að Merrill Lynch bankinn telur að kreppa sé þegar byrjuð í Bandaríkjunum. Um þetta eru ekki allir sammála og greindi Briefing.com frá því að viðmælendur þess töldu að ekki væri kreppa í nánd en veruluga myndi hægja á efnahagskerfinu á næstu misserum.

McDonalds hækkaði um 1,4% í dag þegar tilkynnt var að skyndibitakeðjan ætlar sér að fara út í samkeppni við Starbucks og bjóða upp á fleiri tegundir af kaffi og kaffivörum á veitingastöðum sínum. Hins vegar eru atvinnuleysistölur þær er birtar voru s.l. föstudag farnar að hafa áhrif á fyrirtæki þá sérstaklega í verksmiðju vinnu. Þannig lækkaði Alcoa um 5,7% í dag.