Rússneskir dómstólar úrskurðuðu í gær að olíuframleiðandinn Yukos væri gjaldþrota og að fyrirtækið færi í uppskiptingu eigna, segir í frétt Prime-Tass. Úrskurðurinn kemur fáum á óvart þar sem lánardrottnar fyrirtækisins höfnuðu umbótaáætlun sem stjórnendur Yukos lögðu fram á fundi í síðustu viku.

Rétturinn tilkynnti að Eduard Rebgun muni sjá um eignauppskiptin, en hann hefur séð tímabundið um stjórn Yukos síðan gjaldþrotaferlið fór í gang. Samkvæmt rússneskum lögum ber Rebgun nú að gera grein fyrir öllum eigum fyrirtækisins og ráða sjálfstæðan aðila til að meta verðgildi þeirra. Yukos á ennþá tvær olíuframleiðslustöðvar með framleiðslugetu upp á 425.000 olíuföt á dag.

Rebgun hefur metið skuldir fyrirtækisins á 1.316 milljarða króna. Stóran hluta þeirrar upphæðar skuldar Yukos rússnesku skattinnheimtunni. Yukos skuldar einnig verulegar upphæðir til gasfyrirtækisins Gazprom og Rosneft, sem er ríkisrekið olíufyrirtæki. Gazprom hefur lýst yfir áhuga á hlutabréfum sem Yukos á í fyrirtækinu og Rosneft hefur lýst yfir áhuga á olíuvinnslustöðvum í eigu Yukos ef ekki reynist mögulegt að greiða skuldina með peningum, segir í fréttinni.