Samkomulag hefur náðst milli RÚV og eiganda að skuldabréfi í 1. flokki 2000 um að félagið greiði ekki af skuldabréfinu sem féll á gjalddaga í dag heldur verði greiðslunni frestað til áramóta.

Í tilkynningu frá RÚV segir að uppsafnaður lausafjárvandi félagsins valdi því að ekki sé bolmagn til þess að greiða afborgunina, en hún er að upphæð um 190 m.kr.

Jafnframt er samkomulag um að kröfuhafar beiti ekki vanefndaúrræðum af þessu tilefni og að ekki verði gengið að eignum Ríkisútvarpsins á þessu tímabili. Frestunin mun því ekki hafa áhrif á kjör skuldabréfsins og mun sú fjárhæð sem frestast bera sömu kjör og skuldabréfið þennan tíma og ekki hafa í för með sér kostnað í formi dráttarvaxta eða vanskilagjalda.