Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair mun í dag tilkynna um pöntun sína á 175 Boeing 737-800 Next Generation vélum. Listaverð pöntunarinnar er um 15,6 milljarðar Bandaríkjadala samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Boeing.

Ryanair er sem kunnugt er eitt stærsta lággjaldaflugfélag heims, en félagið rekur í dag 305 Boeing 737-800 vélar. Meðalaldur flugflotans er rúm fjögur ár þannig að félagið hefur stækkað mjög hratt síðustu ár, í það minnsta ef horft er til flotastærðar.

Ryanair hefur dregið það í rúmt ár að staðfesta pöntun á nýjum vélum og heilmikið hefur verið fjallað um það að félagið væri að ota saman bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing og evrópska framleiðandanum Airbus. Eins og álitsgjafar og sérfræðingar í flugheiminum höfðu þó spáð um hefur félagið nú ákveðið að halda sig við Boeing 737 vélar.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, og Ray Conner, yfirmaður farþegaflugvélaframleiðslu Boeing, munu í dag halda sameiginlegan blaðamannafund í New York þar sem tilkynnt verður um ákvörðunina.