Forstjóri lággjalda flugfélagsins Ryanair, Michahel O'Leary, skorar á Evrópusambandið (ESB) að gefa flugumferð frjálsa til og frá landa á Balkanskaganum til þess að bæta ferðamálaiðnað og efnahag á svæðinu.

"Það sem ESB ætti einfaldlega að gera er að færa út "Open Skies" samþykktina þannig að hún nái yfir lönd í Austur Evrópu og á Balkanskaga," sagði O'Leary á ársfundi Þróunarbanka Evrópu í Belgrad.

"Open Skies" samningurinn gerir flugfélögum innan evrópska efnahagssvæðisins og Bandaríkjanna kleift að ákveða áfangastaði án þess að fá tiltekin leyfi frá stjórnvöldum.

Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að samningurinn auðveldi flugsamgöngur þar sem flugfélög þurfa eingöngu að ná samningum við félög í flugvallarrekstri á þeim áfangastöðum sem heyra undir samninginn.

"Við þurfum bara að ákveða til hvaða staða við viljum fljúga, eins og San Francisco til dæmis, og hafa samband við flugvöllinn þar og spyrja hvað það kostar," segir Guðjón. Hann segir að í löndum sem ekki eru aðilar að samningnum, svo sem Kanada, þurfi flugfélög að fá heimild frá stjórnvöldum og þetta sé gert til þess að vernda innlend flugfélög og hefta samkeppni.

Forstjóri Ryanair slær í sama streng og segir að núverandi stefna stjórnvalda í Austur Evrópu snúist um að vernda innlend flugfélög og níðast á neytendum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.