Samtök kaffibænda í Gvatemala hafa lýst yfir neyðarástandi vegna ryðsveppasýkingar sem herjar nú á kaffiplöntur í landinu. Er gert ráð fyrir því að um 15% uppskeru ársins í ár tapist og allt að 40% af uppskeru næsta árs.

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, þekkir vel til á svæðinu og segir ryðsveppinn ferlegan skaðvald, en hann herji mest á Kosta Ríka og Gvatemala.

„Eins og stendur hefur þetta ekki haft áhrif á verið á heimsmarkaði. Þessi tvö lönd eru ekki með það mikla ræktun að þetta hafi teljandi áhrif. Reyndar segja sumir að áhrifin komi ekki í ljós fyrir en á næsta ári þar sem uppskeran er langt komin þetta árið og í sumum tilfellum var búið að tína af trjánum áður en sveppurinn lagðist á plönturnar. Hins vegar er nokkuð ljóst að á næsta ári munu þessar plöntur ekki bera ávöxt og þá gæti verð hækkað frá þessum löndum.“

Hún segir að fleiri þættir gætu haft áhrif á kaffiverð á næstunni. „Síðastliðin tvö ár hefur Kólumbía verið með minni uppskeru sökum mikilla rigninga. Í ár er ástandið mun betra og er álitið að þar verði góð uppskera. Þetta vegur aðeins upp á móti fréttum af ryðsvepp í Mið-Ameríku.“