*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 15. júlí 2016 11:20

SA: SALEK ekki stefnt í hættu

Nýgengnir úrskurðir Kjararáðs stofna SALEK samkomulaginu ekki í hættu að mati Samtaka atvinnulífsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins segja nýgengna úrskurði Kjararáðs ekki stofna SALEK samkomulaginu í uppnám. Segja þeir að hópar sem falla undir kjararáð ekki vera að fá launahækkanir sem séu umfram það sem gerist á almenna launamarkaðnum.

Ráðuneytisstjórar setið eftir

Á sama tíma og launavísitalan hefur hækkað um 90% frá árinu 2006 hafi laun ráðuneytisstjóra hækkað um 61% þegar nýtilkomin viðbót samkvæmt úrskurði Kjararáðs er talin með.

Samkvæmt nýrri skýrslu um launaþróun SALEK hópsins hafa helstu hópar á vinnumarkaði fengið tæplega 80% launahækkanir á tímabilinu frá nóvember 2006 til nóvember 2015.

Hins vegar hafi launaþróun þeirra sem taka laun eftir úrskurðum kjararáðs verið lakari á timabilinu. Alþingismenn hafi hækkað um 41,5% á sama tímabili, ráðherrar um 39,3% og ráðuneytisstjórar um 35,9%.

Þannig hafi þessi hópur dregist aftur úr viðmiðunarhópum SALEK samkomulagsins um 21-24% á tímabilinu.

Einnig kemur þar fram að stjórnendur á almenna vinnumarkaðnum hafi hækkað í launum um 58% á tímabilinu svo laun þeirra sem heyra undir kjararáð hafi hækkað um 11% minna en þeirra á viðmiðunartímabilinu.