SA segir hlutfall launa ekki jafn lágt og Jóhanna hélt fram. Hún sagði hlut launa í landsframleiðslu aldrei hafa verið lægri. Tilkynning SA hljóðar svona: "Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í ræðu á Alþingi í dag að hlutur launa í landsframleiðslu hafi aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007. „Lækkunin svarar til 13% af landsframleiðslu sem farið hafa frá launþegum til fyrirtækja, í krónum talið um 200 milljarðar króna," sagði Jóhanna.

Þetta er ekki rétt.

Umrædd hlutföll, 59% og 72%, eru af hugtakinu vergum þáttatekjum, ekki landsframleiðslu. Vergar þáttatekjur eru mun lægri fjárhæð en verg landsframleiðsla. Árið 2010 er landsframleiðslan áætluð 1.539,5 milljarðar króna en þáttatekjurnar 1.338,3 milljarðar króna. Mismunurinn á þessum tveimur hugtökum felst aðallega í óbeinum sköttum.

Hlutfall launa af landsframleiðslu var í raun 60,1% árið 2007 og 51,2% árið 2010. Mismunurinn er 8,9% sem eru 137 milljarðar króna á verðlagi ársins 2010.

Árið 2007 var hlutur launa í sögulegu hámarki á Íslandi og líklega heimsmet, a.m.k. finnast engin dæmi um svo hátt hlutfall í alþjóðlegum gagnasöfnum OECD eða ESB. Sérkennilegt er að miða við það ár en hin háu hlutföll áranna 2004-2007 skýrast af mjög háu raungengi krónunnar sem ekki fékkst staðist til lengdar. Um það eru flestir sammála.

Hlutfall launa af landsframleiðslu árið 2010 er svipað og það var árin 1997-1998, þannig að núverandi hlutföll eiga sér tiltölulega nýleg fordæmi. Þau ár var sæmilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það er ekki hægt að segja um árið 2007. Nægir að nefna viðskiptahallann sem nam 16% af landsframleiðslu það ár.

Hlutfall launa af landsframleiðslu í Evrópusambandinu að meðaltali er svipað og það er nú á Íslandi.

Vergar þáttatekjur flokkast í launa- og fjármagnstekjur. Sá hluti vergra þáttatekna sem ekki eru laun og launatengd gjöld kallast vergur rekstrarafgangur (e. gross operating surplus). Vergur rekstrarafgangur flokkast í afskriftir, fjármagnstekjur, leigutekjur, arðgreiðslur, hreinan hagnað af rekstri fyrirtækja o.fl. Vergur rekstrarafgangur er því ekki mælikvarði á hagnað fyrirtækja.