Sádí-Arabía hefur bannað bönkum að taka stöðu gegn gjaldmiðil landsins, riyal. Seðlabanki Sádí-Arabíu bindur gengi riyalsins sinn við gengi Bandaríkjadals.

Undanfarið hafa verið blikur á lofti að landið geti ekki haldið genginu, og tengingunni við Bandaríkjadal, stöðugu vegna vegna lækkandi tekna af olíusölu. Vegna þess hafa gjaldeyrismiðlarar í landinu byrjað að velja á að gengi gjaldmiðilsins muni veikjast verulega á næstu vikum og mánuðum. Veðmál á veikingu gjaldmiðilsins hafa ekki verið meiri í rúmlega tvo áratugi. Bannið tekur til allra banka í Sádí-Arabíu og erlendra útibúa sádí-arabískra banka.

Þrátt fyrir aukna pressu á gjaldmiðilinn hefur peningastefnunefnd landsins ítrekað að engin breyting muni vera á tengingu gjaldmiðilsins við Bandaríkjadal. Þrátt fyrir að gjaldeyrisvarasjóður landsins hafi lækkað mikið er hann ennþá sá þriðji stærsti í heiminum, einungis á eftir Kína og Japan. Um 70% af tekjum landsins koma frá olíusölu.