Credit Suisse hyggst sækja sér tæpa 2 milljarða dala með hlutafjárútgáfu eftir gríðarlegt tap svissneska bankans á falli vogunarsjóðsins alræmda, Archegos Capital Management.

Heildartap bankans sem rekja má til Archegos nemur um 5,5 milljörðum dala – ígildi tæpra 700 milljarða króna – en bankinn hefur nú losað um 97% af stöðum sínum sem tengjast honum.

Tapið skyggir á annars góðan undirliggjandi rekstur á fyrsta fjórðungi þessa árs. Fjárfestingabankastarfsemi hefur gengið vel og tekjur frá henni jukust um 80%, meðal annars vegna mikils áhuga á sérhæfðum yfirtökufélögum (e. SPAC), sem bankinn hefur verið leiðandi í samkvæmt frétt Wall Street Journal um málið .

Þá jukust þóknanatekjur bankans um 31% samhliða miklum hækkunum á mörkuðum, og tekjur frá eignastýringu hækkuðu um 3% milli ára. Þegar upp var staðið tapaði bankinn því „aðeins“ 275 milljónum dala á fjórðungnum, ef svo má að orði komast, þrátt fyrir tapið vegna Archegos.