Þeir kalla sig Sætabrauðsdrengina og hafa nú sungið saman í rúmt ár, en hafa þó ekki staðið fyrir jólatónleikum þar til núna. „Við verðum 9. og 10. desember í Hörpunni í Reykjavík og svo förum við líka út á land, meðal annars á Dalvík og Ísafjörð,“ segir Bergþór.

Hann segir að tónleikarnir verði á léttum nótum en á þeim verði samt sem áður ákveðinn hátíðarbragur. Það er þó fleira á döfinni hjá Bergþóri í kringum hátíðarnar, því nú æfir hann sleitulaust fyrir sýningar á Eddunni. Er þar um að ræða leikrit sem Edda Björgvinsdóttir setur upp eftir jólin í kringum 40 ára leikafmæli hennar, en það verður frumsýnt í lok janúar í Gamla bíói.