*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 28. apríl 2017 16:59

SAF: Hækkunin eins og olía á eldinn

Samtök ferðaþjónustunnar gera skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í fjármálaáætlun verði að fullu dregnar til baka.

Ritstjórn
Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF.
Haraldur Guðjónsson

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gera skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í fjármálaáætlun 2018-2022 verði að fullu dregnar til baka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar. 

Þar segir að styrking krónunnar og hækkun launa síðustu misseri hafi leitt til 20 til 30% hækkunar í erlendum gjaldmiðlum, sem skerðir samkeppnishæfi ferðaþjónustunnar verulega. „Á sama tíma hefur afkoma greinarinnar versnað til muna þó ferðamönnum hafi fjölgað. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa mörg hver tapað miklu vegna samninga um fast verð í erlendum gjaldmiðlum. Gistinóttum hefur þegar fækkað og mikið er um afbókanir gistingar og hópa á þessu ári og því næsta. Við þessar aðstæður er fyrirhuguð tvöföldun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna sem olía á eld,“ segir í tilkynningunni. 

Neikvæð áhrif mest á landsbyggðinni

Þar segir einnig að þegar kostnaður ferðamanna hækkar um tugi prósenta vegna; launahækkana, gengisþróunar og hærri virðisaukaskatts, hafa þeir minni fjárráð til að ferðast um Ísland, og skoða fleiri áfangastaði. Því telja SAF að fótunum verði kippt undan rekstrarhæfi fyrirtækja á landsbyggðinni, sem mörg eru lítil og hafa fjárfest að undanförnu. Að þeirra sögn er atvinnu- og samfélagsuppbyggingin í hættu. 

Til að mynda er hægt að lesa umsagnir 400 fyrirtækja, stofnana og hagsmunaaðila innan ferðaþjónustunnar sem sendar hafa verið inn sameiginlega eða í sitt hvoru lagi. „Í þeim kemur skýrt fram hversu mikla ógn forsvarsmenn fyrirtækjanna telja að standi af tillögum ríkisstjórnarinnar,“ segir SAF. 

76,2% töldu að ferðamönnum myndi fækka

„Í könnun sem SAF stóðu fyrir meðal félagsmanna 18.-24. apríl sl. komu fram miklar áhyggjur af afleiðingum þess að tvöfalda virðisaukaskatt á greinina til viðbótar við gengisþróunina. Af 214 sem svöruðu könnuninni töldu 76,2% að ferðamönnum myndi fækka á atvinnusvæði fyrirtækisins.

Í könnuninni sögðu 90% fyrirtækjanna að áhrifin af hækkun virðisaukaskattsins yrðu neikvæð fyrir reksturinn. Þar af töldu 70% af áhrifin yrðu mjög neikvæð,“ segir í tilkynningunni. 

Einnig hafa SAF haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnvöld vegna samráðsleysis og segja að ekkert samráð hafi verið haft við SAF við undirbúning áforma ríkisstjórnarinnar um 20 milljarða króna skattlagningu á atvinnugreinina, né upplýst að sú vinna stæði yfir. „Þessi vinnubrögð eru langt frá því að samræmast góðum stjórnsýsluháttum. Ekki bætti úr skák að í upphafi var ekki einu sinni óskað eftir umsögn við fjármálaáætlunina frá SAF - samtökum atvinnugreinarinnar sem á að taka að sér þessa skattheimtu. Þá var veittur afar skammur umsagnarfrestur og náði stór hluti hans yfir frídaga vegna páska og sumardagsins fyrsta,“ segir í tilkynningunni. 

Stikkorð: SAF olía virðisaukaskattur hækkar eld