*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 2. mars 2021 14:02

Safnar 11 milljónum vegna eitrunar

Uppljóstrarinn í Samherjamálinu segist ekki geta fengið bót meina sinna hér á landi og hyggst safna fyrir meðferð erlendis.

Jóhann Óli Eiðsson
Úr viðtali Kveiks við Jóhannes Stefánsson.
RÚV

Sett hefur verið upp GoFundMe síða fyrir Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmann Samherja í Namibíu, til að fjármagna læknismeðferð sem hann að sögn þarf á að halda. Í söfnunni er því haldið fram að lækna hér á Íslandi gruni að eitrað hafi verið fyrir honum og að heilbrigðiskerfið hér heima búi ekki yfir þeim búnaði sem þarf til að bregðast við. Alls er stefnt á að safna 75 þúsund evrum, andvirði rúmlega 11 milljón íslenskra króna á gengi dagsins.

Jóhannes komst í kastljósið eftir að hann uppljóstraði um meint mútubrot og skattsvik dótturfélaga Samherja í Namibíu og Angóla. Síðan þá hefur sakamálarannsókn staðið yfir sem teygt hefur anga sína víða. Þá hefur málsvörn Samherja að stórum hluta miðað að því marki að neita því að nokkur brot hafi átt sér stað og ef þau hafa átt sér stað hafi þau verið á ábyrgð Jóhannesar. 

Það eru samtök uppljóstrara sem standa að söfnuninni en þar segir að Jóhannes þurfi að gefa vitnaskýrslu í Fishtrot málinu í Namibíu í næsta mánuði. Í frétt á vef The Namibian, sem Jóhannes deilir á Twitter, kemur fram að Jóhannesi hafi ekki auðnast að leita sér meðferðar á Íslandi og þurfi þess vegna að safna fé til að geta leitað til lækna erlendis. 

„Læknar í heimaríki hans, Íslandi, telja að eitrað hafi verið fyrir honum. Því miður býr Ísland ekki yfir bestu mögulegum lækningatækjum og þjónustu (e. state-of-the-art) til að greina hvaða eiturefni er hér að verkum og veita honum þá meðferð sem þarf. Því þarf hann alþjóðlega aðstoð,“ segir í fréttinni. 

Telur að fyrri vinnuveitandi hafi eitrað fyrir sér

Í fréttinni er haft eftir Jóhannesi að eftir að hann hætti störfum hjá Samherja hafi hann hafst við á hóteli í Suður-Afríku. Þar telur hann að eitrað hafi verið fyrir sér og að hann gruni að fyrrverandi vinnuveitandi sinn hafi „fulla vitneskju um það“.

„Hingað til hef ég ekki viljað segja mikið um það en ég verð að gera eitthvað í þessu. Það eru liðin fjögur ár og ég hef enn ekki náð fullri heilsu. Ég hef reynt að gera mitt besta til að ná mér og hef gert allt sem í mínu valdi stendur til þess,“ er haft eftir honum. „Eitthvað þarf ég til bragðs að taka þar sem meðferðirnar hingað til hafa ekki dugað og líkami minn veikist enn.“ 

Meðal einkenna sem Jóhannes segist finna fyrir eru óþægindi um líkamann allan, sljóleiki, verkir fyrir brjósti, hausverkir og fleira og fleira. Það hafi reynst vinum hans og fjölskyldu erfitt að fylgjast með þessu en hann rói öllum árum að því að ná kröftum á ný til að geta haldið áfram að berjast af öllu afli gegn spillingu.

Þegar þetta er ritað hafa þrettán einstaklingar lagt til samtals 612 evrur til söfnunarinnar.