Fregnir í breskum fjölmiðlum herma að breska ríkissjónvarpið BBC sé tilbúið að bjóða um 400 milljónir punda, um 50 milljarða ÍSK, í útsendingarrétt frá Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu frá og með keppnistímabilinu 2009/2010.

Daily Mail heldur því fram að BBC ætli sér að ná inn drjúgum hagnaði með auglýsingasölu og sölu á réttindum til annarra til að sýna frá keppninni. Það er opna sjónvarpsstöðin og aðalkeppinautur BBC, ITV-stöðin, sem nú sendir út frá Meistarakeppninni.

Íþróttafréttadeild BBC er sögð róa að því öllum árum að ná réttinum frá ITV sem greiddi 120 milljónir punda fyrir útsendingarrétt til þriggja ára. Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, er sagt vilja fá að minnsta tvöfalt hærri upphæð en ITV greiddi fyrir útsendingarréttinn.

Þar til viðbótar er búist við að ef gengið yrði til samninga við BBC færi UEFA fram á bætur frá sjónvarpsstöðinni  fyrir að sýna ekki auglýsingar frá styrktaraðilum eins og Ford og MasterCard. Þessi fyrirtæki eru mjög áberandi í útsendingum ITV.