Auglýsingastofan Sahara varð í gær fyrir barðinu á netárás tölvuþrjóta. Brotist var inn á aðgang auglýsingastofunnar á Facebook og hefur fyrirtækið, sem stendur misst aðganginn í hendur tölvuþrjótanna.

Tölvuþrjótarnir hafa nýtt aðganginn til að komast inn á Facebook síður þeirra viðskiptavina Sahara sem auglýsingastofan er tengd í gegnum Facebook og nýtt til að búa til kostaðar auglýsingafærslur á Facebook á kostnað fyrirtækjanna. „Út frá þeim upplýsingum sem Sahara hefur aflað sér þá virðist vera að tölvuþrjótarnir séu að setja upp auglýsingar með því markmiði að selja vörur á erlendum mörkuðum en á þessu stigi er erfitt að greina frá hvort að um fjölbreyttari auglýsingar sé að ræða á meðan beðið er eftir endurgjöf frá Facebook,“ segir í tilkynningu frá Sahara.

Facebook lofað endurgreiðslu

Sahara bendir á að Facebook hafi gefið út að þeim fyrirtækjum sem hafi fyrir barðinu á tölvuþrjótunum fái þann endurgreitt. Þegar hafi einhver fyrirtæki fengið endurgreiðslu frá Facebook.

„Okkur í Sahara þykir það mjög leitt að þetta hafi gerst og erum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að afgreiða þetta mál í samstarfi við Facebook. Við höfum sett okkur í samband við Syndis sem aðstoðar okkur eftir fremsta megni,“ segir Davíð Lúther framkvæmdastjóri Sahara í tilkynningunni.

Sahara hefur sem stendur enga tengingu við aðganginn og getur því ekki séð hvaða fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á þessum tölvuþrjótum. Fyrirtækið hafi sett sig í samband við viðskiptavini með upplýsingum um stöðu mála og leiðbeiningum sem snúa að þessu öryggisbroti til að halda öllum upplýstum á meðan beðið er eftir frekari upplýsingum frá Facebook, en skv. þeim upplýsingum sem Sahara hefur fengið getur það tekið allt að 72 klukkutíma að afgreiða mál að þessari tegund. Facebook hafi gefið út að málið sé í miklum forgangi.