*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 1. maí 2020 12:59

Sakamál Skúla aftur í hérað

Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð um að vísa frá máli héraðssaksóknara gegn Skúla Gunnari Sigfússyni og tveimur öðrum.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá máli héraðssaksóknara gegn Skúla Gunnari Sigfússyni, Guðmundi Hjaltasyni og Guðmundi Sigurðssyni en þeir sæta ákæru fyrir skilasvik. Úrskurðurinn þýðir að héraðsdómur mun þurfa að taka málið til efnismeðferðar. 

Ákæran laut að atvikum síðustu dagana áður en félagið EK1923 ehf. fór í þrot. Í fyrsta lagi laut ákæran að því að Skúli og Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjötjörnunnar ehf., hefðu látið millifæra 21,3 milljónir króna inn á reikning Sjöstjörnunar í mars 2016. Í öðru lagi var ákært fyrir framsal á kröfu á hendur ríkinu vegna úthutunar tollkvóta, alls 24,6 milljónir króna. Sá þáttur málsins laut að Skúla og Sigurðssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Stjörnunnar ehf. Að endingu var ákært fyrir greiðslur í ágúst 2016 til tveggja erlendra birgja. 

Héraðsdómur hafði vísað málinu frá þar sem lagaskilyrði skorti fyrir útgáfu ákæru. Væri það skilyrði fyrir ákæru samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 250. gr. hegningarlaga að sá gerði kröfu um refsingu sem misgert var við. Kæra málsins barst hins vegar frá skiptastjóra þrotabúsins, Sveini Andra Sveinssyni, og taldi dómurinn að ekkert lægi fyrir um að sá sem misgert var við hefði kært málið. Þrotabúið gæti ekki fallið í þann flokk. 

Landsréttur leit til lögskýringagagna við frumvarp það sem varð að 250. gr. hegningarlaganna. Taldi dómurinn að hvorki orðalag ákvæðisins, lögskýringargögn né dómaframkvæmd leiða til þess „að krafa um aðfarargerð verði að tengjast þeirri greiðslu sem ákært er fyrir eins og [sakborningar héldu] fram, enda fær það með engu móti samræmst þeim röksemdum sem að baki því liggja.“ Sökum þess kæmi ekki til álita það skilyrði til útgáfu ákæru að mál skuli aðeins höfða að sá krefjist þess sem misgert var við. 

Öðrum röksemdum fyrir frávísun var einnig hafnað en meðal annars var byggt á því að embætti héraðssaksóknara gæti ekki farið með málið en Ólafur Þór Hauksson stýrir því. Sá var áður sérstakur saksóknari og hafði hann áður sótt mál gegn Hjaltasyni. Lauk því máli með sýknu í Hæstarétti. 

Hefur Guðmundur Hjaltason stefnt ríkinu til greiðslu bóta vegna þess máls en hann telur að rannsókn þess máls hafi verið stórlega ábótavant. Téður Ólafur Þór sé á vitnalista í umræddu bótamáli og séu málin tvö, það er bótamálið og sakamálið nú, svo samtvinnuð að saksóknara hafi borið að víkja sæti. Þá hafi ríkislögmaður og sérstakur saksóknari komið sér saman um að tefja bótamálið eins og kostur sé. Landsréttur taldi ekki næg tengsl milli málanna til að valda vanhæfi og því kæmi frávísun ekki til greina af þeim sökum.