Bandaríska stórfyrirtækið General Electric er sakað um 38 milljarða dollara bókhaldssvik í sótsvartri skýrslu sem birt var í dag. Sá sem fór fyrir skrifum skýrslunnar er Harry Markopolos en hann er þekktastur fyrir að hafa afhjúpað Bernie Madoff árið 2008 fyrir stærsta pýramídasvindl sögunnar. Að mati skýrsluhöfunda er um stærra svik en bæði Enron og WorldCom að ræða enda nemur upphæðin um 40% af markaðsvirði General Electric.

Í skýrslunni sem er 175 blaðsíðna löng og hefur verið birt á vefsíðunni GEfraud.com kemur meðal annars fram að verulegir annmarkar séu á tryggingastarfsemi félagsins og þá sérstaklega á bótasjóð fyrirtækisins sem fékk þó 15 milljarða dollara innspýtingu á síðasta ári. Að mati skýrsluhöfunda sem hafa greint fyrirtækið í yfir ár er General Electric að fela mikið tap í tryggingastarfsemi sinni sem þurfi innspýtingu upp á 29 milljarða dollara að halda.

Að sögn Markopolos telur hann það sem teymi hans hefur fundið einungis vera toppinn á ísjakanum yfir bókhaldssvik General Electric. Hann telur fyrirtækið eiga langa sögu af bókhaldssvikum sem nái allt aftur til ársins 1995 þegar einn nafntogaðasti forstjóri í sögu fyrirtækisins, Jack Welch sat við stjórnvölin. Þá bendir hann einnig á að fyrirtækið hafa breytt reikningsskilaaðferðum sínum á 2-4 ára fresti til þess að koma í veg fyrir að greinendur geti gert samanburð milli lengri tímabili. Það þýði með öðrum orðum að fyrirtækið hafi haft fyrir því að gera það ómögulegt að greina árangur ólíkra sviða fyrirtækisins.

Hlutabréfaverð General Electric hefur það sem af er degi lækkað um rúmlega 7% í kjölfar birtingu skýrslunnar. Fyrirtækið sjálft hefur vísað áskökunum Markopolos á bug en neitaði að tjá sig frekar um innihaldsefni skýrslunnar í svari við fyrirspurn CNBC . Þá gagnrýnir General Electric að Markopolos hafi afhent ónefndum vogunarsjóði sem hann vinnur með, skýrsluna áður en hún var birt opinberlega.

Höfundur skýrslunnar hefur greint frá því að hún hafi verið afhent verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna auk þess sem ákveðnar upplýsingar sem upp hafi komið við rannsóknina hafi einungis verið afhentar yfirvöldum en ekki birtar opinberlega.