Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs Samherja, sakar Seðlabanka Íslands um að hafa reikna rangt þegar Samherji var sakaður um að selja tengdum aðilum afurðir á undirverði.

„Við hjá Samherja fengum nú loks í hendur hluta rannsóknargagna Seðlabankans í máli hans á hendur okkur. Það er ekki laust við að okkur hafi brugðið við að skoða þá aðferðafræði og þá útreikninga sem þar eru viðhafðir. Ég, ásamt fleirum, höfum að undanförnu verið að fara í gegnum þau skjöl sem okkur voru afhent og langar mig aðeins að deila með ykkur nokkrum atriðum sem ég hef rekist á í þeim,“ segir Siguður í bréfi til samstarfsmanna sem birtist á vef Samherja.

Sigurður rifjar upp að Seðlabanki Íslands rannsakaði útflutning Ice Fresh Seafood ehf. á tímabilinu 1. apríl 2009 til loka mars 2012. Félagið er útflutningsfyrirtæki Samherja og velti á þessu 36 mánaða tímabili um 96 milljörðum króna. Þorsteinn Már hafi verið kærður af Seðlabanka Íslands sem stjórnarmaður í Ice Fresh Seafood vegna sölu á rúmum 5 tonnum af bleikju til dótturfélags Samherja í Þýskalandi og nemur fjárhæð hinna meintu brota rúmum 2 milljónum króna eða sem samsvarar 0,002% af veltu félagsins.

„Til að búa til hið svokallaða undirverð leggur Seðlabanki Íslands að jöfnu sölureikninga með mismunandi söluskilmálum inn á ólík markaðssvæði. Þessir mismunandi skilmálar gera það að verkum að í öðru tilvikinu ber söluaðilinn allan kostnað upp að dyrum kaupanda, þar með talda tolla (DDP skilmálar), en í hinu tilvikinu er það kaupandinn sem ber þann kostnað (CIF skilmálar),“ segir Sigurður Óli í greininni.

Þannig hafi verið kært fyrir sölu sem hafi samkvæmt útreikningum Seðlabankans gefið 21% lægra verð til tengds aðila en í raun skilað 1% hærra verði til Ice Fresh Seafood þegar fyrirtækið var búið að greiða öll þau gjöld sem því var skylt samkvæmt söluskilmálum. Í öllum tilfellum hafi Seðlabankinn borið saman CIF verð til tengds aðila við DDP verð til ótengds aðila. Þannig hafi bankinn komist að þeirri niðurstöðu að um undirverð væri að ræða.