Skiptastjóri Milestone hafði fullan aðgang að bókhaldsgögnum félagsins hjá sérstökum saksóknara, eða menn í hans umboði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að að þrotabúið hafi að auki fengið aðgang að tölvupóstum félagsins.

Morgunblaðið vísar í minnisblað sem til kröfuhafa sem slitastjóri Milestone vann um skýrslu sem hinir ákærðu lögreglumenn unnu og blaðið hefur undir höndum. Þar segir: „Í grófum dráttum eru niðurstöður skýrslunnar þær að líklegt sé að Milestone ehf. hafi fjármagnað afborganir og uppgreiðslu lána með ólögmætum hætti frá 30. nóvember 2007.“ Þá er í blaðinu haft eftir verjanda Karls Wernerssonar að þegar lögmenn hafi séð skýrsluna hafi þeir áttað sig á tengslum skýrsluhöfunda við embætt sérstaks saksóknara og gert athugasemd við hana eftir að þeir áttuðu sig á innihaldinu.

Eins og fram kom í vikunni hafa tveir lögreglumenn, sem báðir eru fyrrum starfsmenn embættis sérstaks saksóknara, verið kærðir til ríkissaksóknara vegna brots á þagnarskyldu. Mennirnir, sem létu af störfum um síðustu áramót, eru kærðir fyrir að veitt Grími Sigurðssyni, skiptastjóra Milestone, aðgang að upplýsingum úr rannsókn máls sem þeir unnu að á sama tíma og þeir störfuðu fyrir sérstakan saksóknara. Grímur sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að hann teldi sig hafa verið í fullum rétti til að nýta þær upplýsingar sem lögreglumennirnir unnu og afhentu þrotabúinu.

Vitað var í október af áformum lögreglumannanna um að hefja sjálfstæða rannsóknarvinnu. Þeir sögðu þá upp störfum hjá embætti sérstaks saksóknara en unnu til áramóta hjá embættinu. Í desember hófu þeir störf á lögmannsstofu í hálfu starfi samhliða hálfu starfi hjá embættinu. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara að skýrslan sem um ræðir hafi verið unnin á árinu 2011, þegar mennirnir voru enn í vinnu hjá embætti sérstaks saksóknara.