Í samræmi við áður undirritaða viljayfirlýsingu hafa verið undirritaðir samningar um sölu á eignarhlut Kaupþings Búnaðarbanka hf. í Kaupthing Bank A/S (75%) til Sparisjóðs Færeyja (Føroya Sparikassi P/F), en Sparisjóðurinn átti fyrir 25% hlut í Kaupthing Bank A/S.

Til stóð að FIH Erhvervsbank A/S, sem Kaupþing Búnaðarbanki keypti fyrr á árinu, myndi samhliða yfirtaka Fyrirtækjaráðgjöf, Einkabankaþjónustu og Miðlun Kaupthing Bank A/S. Niðurstaðan varð hins vegar sú að FIH mun einungis yfirtaka Fyrirtækjaráðgjöf Kaupthing Bank A/S.

Áætlaður söluhagnaður vegna þessara viðskipta er um 400 milljónir íslenskra króna fyrir skatt. Salan miðast við 31. desember 2004.

Salan er gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins í Danmörku (Finanstilsynet) og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Kaupthing Bank A/S.

Samhliða ofangreindum viðskiptum hefur Kaupþing Búnaðarbanki hf. keypt 49% hlutafjár í Kaupthing Føroyar Virðisbrævameklarafelag P/F af Sparisjóði Færeyja en þar með verður allt hlutafé Kaupthing Føroyar í eigu Kaupþings Búnaðarbanka hf.