Sala Alfesca [ A ] nam 134 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2007 til 2008 og jókst um 20% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA varð 7,3 milljónir evra og jókst um 108%. Hagnaður eftir skatta nam 0,8 milljónum evra samanborið við 1,8 milljóna evra tap í fyrra.

Í fréttatilkynningu vegna uppgjörs á fyrsta ársfj er haft eftir Xavier Govare forstjóra Alfesca: „Fjárhagsárið 2007-2008 byrjar mjög vel þrátt fyrir óvenjulega miklar hækkanir á hrávöruverði sem Alfesca eins og aðrir matvöruframleiðendur hafa staðið frammi fyrir. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður er afkoma félagsins á ársfjórðungnum ánægjuleg þar sem heildarsala jókst um 20% samanborið við sama tímabil í fyrra, nam samtals 134 milljónum evra, en innri vöxtur félagsins nam 5%. Það er uppörvandi að sjá að vöxturinn á rætur að rekja til allra grunnstoðanna í starfsemi félagsins en á „pro-forma“ grundvelli jókst sala á reyktum laxi og fiski um 5%, pönnukökum (blinis) og smurvörum um 7%, rækjum og skelfiski um 4% en sala á andalifrarkæfu (foie gras) og andakjöti var stöðug milli ára enda er venjulega sala á þeim vörum róleg yfir sumartímann.

EBITDA samstæðunnar á ársfjórðungnum varð 7,3 milljónir evra sem er 108% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Á samanburðargrundvelli varð aukning EBITDU mjög góð eða 83%.1 Þessi góði árangur hefur náðst þrátt fyrir áhrif tveggja utanaðkomandi þátta sem höfðu neikvæð áhrif á fyrsta ársfjórðungi. Fyrst ber að telja að slæmt veðurfar í Evrópu síðastliðið sumar hafði slæm áhrif á sölu sumarvara félagsins, t.d. útigrill-línu félagsins í rækju og andakjöti auk smurvara og ídýfa. Í öðru lagi leiddu óvenjulegar hækkanir á hrávöruverði, sem byrjuðu síðastliðið vor, til hækkunar á breytilegum kostnaði við framleiðslu á andaafurðum annars vegar og pönnukökum og smurvörum hins vegar. Þegar litið er til grundvallarþátta þessara hræringa á markaðnum gerum við ráð fyrir að erfiðar markaðsaðstæður og hærra hráefnisverð muni hafa áhrif fram á næsta almanaksár. Við höfum þegar gert ráðstafanir vegna hærra hráefnisverðs og gengið til samstarfs við viðskiptavini okkar um nauðsynlegar verðhækkanir til að mæta auknum tilkostnaði. “