Hf. Eimskipafélag Íslands hefur selt 49% hlut félagsins í Avion Aircraft Trading. Kaupandi er félagið Arctic Partners ehf. sem er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns AAT, Arngríms Jóhannssonar, stjórnarmanns í AAT auk annarra stjórnenda AAT. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Þessir sömu aðilar eiga ennfremur 51% hlut í félaginu sem Eimskip seldi þeim í lok árs 2006.

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok júlí að þessir aðilar væru að kaupa eftirstandi hlut en þá var skrifað  undir samning þess efnis.

Söluverð hlutarins er um 28 milljónir USD eða um 1,8 milljarðar íslenskra króna. Söluhagnaður Eimskips vegna sölunnar á 49% hlut er um 24 milljónir USD eða tæpir 1,6 milljarðar króna. AAT var að fullu í eigu Eimskips þar til í október 2006 þegar Eimskip seldi sömu aðilum 51% hlut í félaginu.

Samningur um sölu hlutanna var undirritaður þann 31. júlí sl. en var með fyrirvörum sem nú hefur verið aflétt. Nú hefur verið gengið frá endanlegum samningum milli aðila án nokkurra fyrirvara né skilyrða. Salan á 49% í félaginu mun verða færð á þriðja ársfjórðung. Söluandvirðið verður notað til að greiða niður skuldir félagsins sem eru tilkomnar vegna mikilla fjárfestinga á undanförnum mánuðum í fyrirtækjum á sviði kæli- og frystigeymsla.

Eimskip greindi frá fyrirhugaðri sölu á 49% hlut í AAT í lok maí á þessu ári og er hún hluti af þeirri ákvörðun stjórnar Hf. Eimskipafélags Íslands að selja
flugrekstrartengdar eignir félagsins. Sala á Air Atlanta hf. er í góðu ferli með stjórnendum Air Atlanta og ráðgjöfum sem koma að verkefninu.

?Sala þessi er í samræmi við stefnu Eimskip," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, í frétt frá félginu, "sem kynnt var í vor. Mikilvægt er fyrir Eimskip að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni sem er í flutningum og geymslu á kæli- og frystivörum og erum við að byggja hana upp og höfum nú þegar
leiðandi stöðu á því sviði á heimsvísu. Við erum ánægð með söluna til stjórnenda félagsins og teljum Avion Aircraft Trading í góðum höndum og hlökkum
til að sjá það félag vaxa og dafna í framtíðinni.?

?Við stjórnendur höfum átt mjög ánægjulegt samstarf við Eimskip síðustu misserien töldum nú réttan tímapunkt til að kaupa félagið í heild þegar tækifæri gafst sem hluti af frekari uppbyggingu félagsins," segir Hafþór Hafsteinssonar stjórnarformaður Avion Aircraft Trading í fréttinni. "Við erum að vinna í spennandi verkefnum og horfum fram á góð tækifæri sem styðja við kaupin.?