Sala á farsímum jókst um 44,3% á milli ára í júlí, að því er fram kemur í smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Setrið segir söluaukninguna stafa af því að nýjar gerðir snjallsíma komu á markað í vor og telji seljendur að fólk sé að endurnýja tækin sem gerir því kleift að nota síma í netsamskiptum. Nokkuð stöðug aukning hefur verið það sem af er ári í sölu á stórum raftækjum, svokölluðum hvítvörum og sömuleiðis hefur velta sérverslana með rúm aukist um 18,7% að raunvirði það sem af er þessu ári.

Fram kemur í smásöluvísitölunni að velta í dagvöruverslun jókst um 4,1% á föstu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,6% á breytilegu verðlagi. Verð á dagvöru hækkaði um 3,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala áfengis jókst um 7,7% á milli ára á föstu verðlagi og jókst um 8,2% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi var 0,5% hærra í júlí síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Á sama tíma dróst fataverslun saman um 0,7% á milli ára í júlí. Verð á fötum var 1,5% hærra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt upplýsingum Rannsóknasetursins.

Nánar má lesa um málið á vef Rannsóknasetursins .