Ekki stendur til að losa um hlut ríkisins í Landsbankanum að svo stöddu en öðru máli gegnir um hlut ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. „Ég tel að það gegni allt öðru máli um Landsbankann þar sem ríkið fer með meirihluta alls hlutafjár. Það er því mun stærri ákvörðun að losa um eignarhald ríkisins á Landsbankanum,“ segir Bjarni.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku þá nemur eignarhlutur ríkisins í bönkunum þremur 252 milljörðum króna miðað við bókfært virði eiginfjár þeirra. Langstærsti hluti þess, eða 228 milljarðar, er hluturinn í Landsbankanum, þar sem ríkið á 98% hlut. Hlutur ríkisins í Arion banka nemur 13% en 5% í Íslandsbanka.

„Við munum horfa til þess við okkar langtíma ríkisfjármálaáætlun hvaða svigrúm kann að vera til staðar til þess að losa um eignarhluti í bönknunum,“ segir Bjarni og bætir við að áhersla verði lögð á að fá sem hæst verð eignarhlutinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.