Sala nýrra bíla hefur aukist um tugi prósenta hjá einstökum bílaumboðum á milli ára og lítur út fyrir að 12 þúsund nýir bílar muni seljast á árinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

„Lækkun á virðisaukaskatti og sterkara gengi krónu hefur leitt til lægra bílaverðs. Lokahnykkurinn er síðan leiðréttingin sem loks er komin á hreint og ljóst að hún hefur veruleg áhrif á margar fjölskyldur,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Söluaukningin hefur einnig verið mikil hjá Toyota á Íslandi sem seldi 195 nýja bíla í janúar. Það er 44% aukning á milli ára.

„Ég held að fólk sé að verða sannfærðara um að nauðsynlegur stöðugleiki sé að skapast ... Það er farið að trúa því að hlutirnir séu að lagast,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota, og bætir við að viðskiptavinir séu nú ákveðnari í kaupum þegar þeir komi í slíkum erindum í bílaumboðið.