*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Erlent 6. júní 2020 16:01

Sala Volvo jókst um 40% milli mánaða

Þrátt fyrir batamerki hjá sænska bílaframleiðandanum þá var salan í maímánuði um 25,5% lægri en á sama tíma í fyrra.

Ritstjórn
Volvo bíll af týpunni S90.

Sala bílaframleiðandans Volvo jókst um 40% í maí frá því í apríl. Víða um heim var hinum ýmsu takmörkunum, líkt og samkomubönnum, létt í maí og skilaði það sér í aukinni sölu. í samanburði við maí í fyrra dróst salan hins vegar saman um 25,5% í maí síðastliðnum. 

Í Bandaríkjunum seldust 9.519 Volvo bílar í maímánuði sem er um 2,5% minna en á sama tíma á síðasta ári. Sala Volvo í Kína lækkaði hins vegar um 21,8% frá fyrra ári en um 15 þúsund bílar voru seldir þar í síðasta mánuði.  

Mesti samdrátturinn í sölu var þó í Evrópu en þar seldi sænski bílaframleiðandinn 14.965 bíla í mánuðinum sem er tæplega helmingi minna en í maí í fyrra. 

Jepparnir voru í fyrirrúmi hjá Volvo í maí en bílar af tegundunum sem byrja á XC vógu um 68,5% af sölu fyrirtækisins. Í maímánuði í fyrra nam sala jeppa um 61% af allri sölu bílaframleiðandans, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu Volvo

Stikkorð: Volvo