Salernislosunaraðstaðan í Sundahöfn er sú besta sem gerist á landinu, segir Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Farfugla, sem rekur farfuglaheimili í Laugardal og tjaldsvæðið þar.

VB.is greindi frá því í gær að kona hefði í bréfi til Jóhannesar Haukur Jóhannesson og Rúnars Freys Gíslasonar á Bylgjunni lýst yfir slæmum aðstæðum á tjaldsvæðinu í Laugardal. Svæðið þar hefði drabbast niður og aðstæður til að losa úr ferðasalernum væru ekki við tjaldsvæðið heldur í Sundahöfn.

Meðal annars sagði konan að hún hefði orðið vitni að þvi að erlendur ferðamaður hefði losað úr salerni sínu á bílastæðið við tjaldsvæðið. „Ég er búinn að reka þetta svæði í fjórtán ár og hef aldrei upplifað þetta,“ segir Markús í samtali við VB.is. Hann sagði að tjaldsvæðið hefði eitt sinn haldið úti aðstöðu til að hægt væri að losa. Svo hafi verið komið upp bestu aðstöðu landsins til þess í Sundahöfn og þá hafi tjaldsvæðið ákveðið að loka sinni. Sárafáir hafi gert athugasemd við þetta. Leiðin að aðstöðunni í Sundahöfn sé vel merkt.

Markús segir að aðstaðan í Laugardalnum sé sífellt að verða betri og betri. Reykjavíkurborg sé nýbúið að bjóða út 250 fermetra þjónustuhús sem verði tekið í notkun næsta vor. Þá sé nýlega búið að taka í notkun 100 fermetra hús með salernisaðstöðu.