Björn Brynjúlfur Björnsson hefur starfað sem hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands í hartnær þrjú ár. Eftir að hafa lokið grunnnámi í verkfræði við Háskóla Íslands hélt Björn til Bretlands í framhaldsnám í fjármálahagfræði við Oxford háskóla. Í kjölfarið hóf hann störf hjá fjárfestingarbankanum Credit Suisse í Lundúnum en fluttist þaðan til ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company í Kaupmannahöfn áður en hann sneri aftur heim. Björn segist hafa verið spenntur fyrir því að notfæra sér hagfræðimenntun sína til að reyna að hafa áhrif til góðs á íslenskt samfélag.

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið hjá Viðskiptaráði?

„Mér finnst skemmtilegast hversu fjölbreytt það er. Einn daginn getum við verið að fást við húsnæðismál og vikuna eftir erum við að skoða hvort kökugerðarlist eigi að vera lögvernduð starfsgrein, sem við teljum hana ekki eiga að vera svo því sé haldið til haga. Það er skemmtilegt að geta snert á öllum þessum ólíku þjóðmálavinklum.“

Hvernig myndirðu lýsa hlutverki Viðskiptaráðs?

„Hlutverk okkar er að berjast fyrir bættu rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Það er trú okkar sem hér vinnum og aðildarfélaga ráðsins að með því að bæta rekstrarumhverfið séu skapaðar forsendur til að auka hér lífskjör og veita fólki tækifæri til að gera spennandi hluti. Á þeirri hugsjón byggir ráðið og hefur nú gert í 99 ár.“

Hvernig hagið þið ykkar baráttu?

„Starf okkar er þrískipt. Í fyrsta lagi málefnastarf. Við gefum út skýrslur og kynningar í tengslum við stefnu stjórnvalda og erum líka með upplýsingagjöf, til dæmis leiðbeiningar um stjórnarhætti til að hjálpa fyrirtækjunum sjálfum. Í öðru lagi erum við með hagsmunabaráttu. Þá sendum við umsagnir til Alþingis og ráðuneyta vegna lagafrumvarpa og tökum þátt í nefndum til að rödd atvinnulífsins heyrist í vinnu stjórnvalda. Þriðji þátturinn er menntun, við stofnuðum Háskólann í Reykjavík og rákum Verzlunarskólann um árabil og erum að auki með menntasjóð sem veitir myndarlega rannsókna- og námsstyrki. Markmiðið með menntastarfi okkar er að stuðla að því að menntakerfið skili sem hæfustum einstaklingum út í atvinnulífið.“

Sömu skoðanir og hjá meirihluta Íslendinga

Þið talið fyrir frelsi í viðskiptum og heilbrigðu atvinnulífi. Flokkið þið ykkur hægra megin á pólitíska ásnum?

„Ég myndi ekki flokka okkur sem pólitísk að því leyti að hér er pláss fyrir fólk með allar stjórnmálaskoðanir svo lengi sem það vill vinna að þessari hugsjón að hagfellt rekstrarumhverfi fyrirtækja sé grundvöllur bættra lífskjara á Íslandi. En auðvitað eru stjórnmálamenn misjafnlega sammála þessari sýn eftir því hvar þeir eru staðsettir á vinstri-hægri kvarðanum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .