Hagnaður HB Granda á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 3,7 milljónum evra (0,4 milljarðar króna á meðalgengi tímabilsins) borið saman við 5,6 milljónir á sama tímabili í fyrra. Dróst hagnaður því saman um þriðjung milli ára. Þetta kemur fram í uppgjöri HB Granda á fyrsta ársjórðungi.

Rekstrartekjur HB Granda námu 42 milljónum evra samanborið við 44 milljónið árið áður. EBITDA nam 7,4 milljónum evra (17,6% af rekstrartekjum) á tímabilinu borið saman við 12,4 milljónir (28,2% af rekstrartekjum) á sama tímabili í fyrra.

Þann 14. desember 2016 hófst verkfall sjómanna sem leystist ekki fyrr en 18. febrúar 2017. Eftir það hófst snörp og stutt loðnuvertíð, þar sem skip félagsins veiddu um 26.800 tonn af uppsjávarfiski. Eflaust setja þessir þættir svip sinn á árshlutauppgjörið.

Heildareignir félagsins námu tæplega 477 milljónum evra í lok mars 2017. Eiginfjárhlutfall var 53,2% í lok mars en var 55,6% í lok árs 2016.

Handbært fé frá rekstri nam 4,1 milljón á tímabilinu en var 6,2 milljónir á sama tíma fyrra árs. Skipafloti HB Granda var óbreyttur frá áramótum en nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 3,1 milljón evra og fjárfesting vegna nýrra skipa nam 13,3 milljónum. Handbært fé hækkaði um 2,6 milljónir evra á tímabilinu.