Hagvöxtur mældist 0,4% í Ástralíu á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þótt þetta sé helmingi minna en vænst hafði verið eru menn bjartsýnir þar í landi enda vöxturinn 2,3% á ársgrundvelli. Það er talsvert betri niðurstaða en á evrusvæðinu. Þar dróst hagvöxtur saman um 0,3% og í Bretlandi um 0,2%

Í frétt breska útvarpsins, BBC, um efnahagslíf Ástrala kemur fram að það á mikið undir námavinnslu og því að eftirspurn haldist í horfinu í Indlandi og Kína. Síðustu mánuði hefur reyndar dregið þar úr eftirspurn eftir vörum frá Ástralíu og hafði það áhrif á hagtölurnar enda dróst útflutningur saman um 4,7% á milli ársfjórðunga.

Þrátt fyrir tímabundinn skell er ekki búist við að hagkerfið dragist saman á árinu. Þvert á móti er reiknað með að það nái sér á strik eftir því sem líði á árið. Það er staðfest frekar í hagspá ástralska seðlabankans sem gefin var út í gær. Þar er gert ráð fyrir 3-3,5% hagvexti á árinu.