Samdráttur varð á breska smásölumarkaðinum í síðasta mánuði þrátt fyrir að sala á fatnaði hefði aukist sökum þess góða veðurs sem ríkti í aprílmánuði. Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir samtök smásöluverslana kom fram að salan hefði aukist um 2,4%, en það er nokkuð minna heldur en í marsmánuði þegar salan jókst um 3,9% og jafnframt minnsta söluaukning í geiranum frá því í nóvember árið 2006.

Þessi afkoma smásöluverslana var töluvert lægri heldur en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Í skoðanakönnun sem Dow Jones fréttastofan gerði á meðal hagfræðinga var því spáð að salan myndi aukast um 5,2%. Helen Dickinson, sem sér um framkvæmd kannana um afkomu smásöluverslana hjá KPMG, segir að þessar tölur gætu bent til þess að von væri á minnkandi vexti í smásölu á næstunni, einkum í ljósi þess að fastlega er gert ráð fyrir stýrivaxtahækkunum hjá Englandsbanka.

Frá því í ágústmánuði á síðasta ári hefur bankinn hækkað vexti í þrígang um 0,25% og mun væntanlega hækka þá upp í 5,5% þegar stjórn bankans tekur ákvörðun um stýrivexti í dag.