Ráðgjafafyrirtækið ARA Engineering og norska fyrirtækið Norconsult hafa sameinað krafta sína í verkefnum innan orkuflutnings. ARA Engineering hefur sérhæft sig í greiningu á raforkukerfum, hönnun háspennulína, jarðstrengja og tengivirkja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Samkvæmt tilkynningunni mun starfsvettvangur fyrirtækisins erlendis, stækka umtalsvert. Jafnframt mun fjölbreytni ráðgjafar sem boðin er viðskiptavinum aukast.

„Við hjá ARA Engineering höfum byggt upp hönnun á háspennuvirkjum hér heima og erlendis. Ráðgjöfin mun styrkjast við sameiningu fyrirtækjanna. Við teljum ávinning að vinna sem hluti af Norconsult samstæðunni“ segir Árni Björn Jónasson framkvæmdastjóri ARA Engineering í tilkynningunni.

„Við hlökkum til að bjóða ARA með í liðið þannig að við getum í sameiningu byggt upp sterka ráðgjöf varðandi raforkuflutning bæði á Norðurlöndum og alþjóðlega. Þetta mun koma viðskiptavinum okkar til góða með því að við bjóðum þeim þverfaglega þjónustu“ segir Egil Gossé, framkvæmdastjóri Norconsult í Skandinavíu.

ARA Engineering er ráðgjafarfyrirtæki með 25 starfsmenn og er aðalskrifstofa þess á Íslandi. Fyrirtækið er með dótturfyrirtæki í Noregi og í Póllandi. Með sameiningunni verður Norconsult með starfsemi  á Íslandi og í Póllandi.

Norconsult er leiðandi ráðgjafarfyrirtæki í Noregi, alfarið í eigu starfsmanna. Starfsmenn eru 3250 talsins í 91 starfstöð um allan heim. Öllum starfsmönnum ARA Engineering gefst kostur að verða hluthafar í Norconsult. ARA á Íslandi verður rekið áfram undir eigin nafni. ARA Noregur sameinast Norconsult og ARA Pólland verður rekið óbreytt.