Kaupfélag Eyfirðinga og Grýtubakkahreppur hafa stofnað samstarfshópinn ?Kaldbakur kallar", sem hefur það að markmiði að auðvelda útivistarfólki aðgengi að fjallinu Kaldbaki við austanverðan Eyjafjörð ? t.d. skíðafólki, göngufólki, vélsleðafólki o.fl. KEA leggur fram hálfa milljón króna og Grýtubakkahreppur aðra hálfa milljón til að fjármagna starfsemi starfshópsins.

Fyrsta skref í starfsemi ?Kaldbakur kallar" er að hvetja til og undirbúa gerð vegar frá Grenivík upp í Grenjárdal í sunnanverðum Kaldbaki, sem myndi bæta til muna aðstöðu þeirra sem nú þegar stunda útiveru í Kaldbaki, einkum yfir vetrarmánuðina. Strax á þessu ári verður hugað að legu nýs vegar og tilskilanna leyfa aflað til vegagerðar.

Sem kunnugt er hefur verið boðið upp á ferðir á Kaldbak í snjótroðara undanfarna vetur og hafa vinsældir þeirra aukist ár frá ári, enda vilja margir halda því fram að aflíðandi hlíð Kaldbaks sé lengsta og að mörgu leyti skemmtilegasta skíðabrekka landsins og það sem meira er að snjór er lengur í hlíðum Kaldbaks en í mörgum öðrum fjöllum við Eyjafjörð.
Í stjórn ?Kaldbakur kallar" eru Guðný Sverrisdóttir, formaður, Sigurbjörn Höskuldsson, Andri Teitsson og Viggó Benediktsson.