Stjórnir Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands hafa undirritað viljayfirlýsingu um að athuga möguleika á sameiningu sjóðanna. Í frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða kemur fram að gert er ráð fyrir að sameining sjóðanna byggi á stöðu þeirra í árslok 2005 og að hún verði til afgreiðslu á ársfundum sjóðanna, sem halda skal fyrir maílok 2006.

Gert er ráð fyrir að sameining sjóðanna byggi á stöðu þeirra í árslok 2005 og að hún verði til afgreiðslu á ársfundum sjóðanna, sem halda skal fyrir maílok 2006.

Markmið með sameiningu er að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti lífeyrisréttindi sem sameinaður sjóður getur veitt sjóðfélögum sínum.

Félagssvæði Lífeyrissjóðs Austurlands nær yfir allt Austurland frá Bakkafirði í norðri til Hornafjarðar í suðri og félagssvæði Lífeyrissjóðs Norðurlands nær frá Hrútafirði í vestri til Þórshafnar í austri. Félagssvæði sameinaðs sjóðs mun því ná til allra byggðakjarna á Norður- og Austurlandi.