Verkföll í Portúgal hafa leitt til raskana á flugsamgöngum, sem hafa að stórum hluta legið niðri í dag. Lestarsamgöngur í Lissabon, höfuðborg landsins, liggja einnig niðri vegna mótmæla verkalýðshreyfinga. Fjölmargir hafa lagt niður vinnu til að mótmæla niðurskurðartillögum stjórnvalda, sem hafa verið samþykktar. Þeim er ætlað að opna fyrir frekara lánsfé úr björgunarsjóði evruríkja.

Að því er kemur fram í frétt Bloomberg verður neðanjarðarlestarkerfi í Lissabon lokað þar til klukkan 13 á morgun. Flugi til margra borga Evrópu var frestað í morgun, meðal annars til London og Franfurt.

Fáar góðar fréttir berast frá Portúgal þessa dagana. Fyrr í dag tilkynnti matsfyrirtækið Fitch um lækkun á lánshæfiseinkunn landsins, sem nú er komið í ruslflokk. Moody's færði lánshæfi Portúgals í sama flokk um síðasta sumar.