Samherjar Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, innan Seðlabankans, óttast að ríkisstjórnin muni finna nýja mann í hans stað þegar skipunartími Más rennur út á næsta ári. Þetta kemur fram í grein í Kjarnanum í dag. Seðlabankastjóri er skipaður til fimm ára. Már var skipaður í júní 2009, fljótlega eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum.

Í Kjarnanum er greint frá því að Seðlabankinn hafi átt fund með breiðum hópi kröfuhafa Glitnis á dögunum. Már hafi setið fundinn ásamt öðrum úr framkvæmdastjórn bankans. Fulltrúar Seðlabankans hafi tekið fram í upphafi fundarins að ekki  væri um formlegan samningafund að ræða. Seðlabankinn telji sig einfaldlega ekki hafa umboð til að standa fyrir slíkum viðræðum en geti hins vegar ekki skýrt hver sé með slíkt umboð.

„Það er vægast sagt skrýtin staða að Seðlabankinn, sem á  samkvæmt lögum að vera sjálfstæð stofnun og ein af frumskyldum hans að stuðla að fjármálastöðugleika, telur sig ekki  njóta trausts stjórnvalda til að sinna skyldu sinni.

Vantraustið snýr ekki síst að Má Guðmundssyni seðlabankastjóra. Innan  Seðlabankans óttast samherjar Más að skipunartími hans verði  ekki endurnýjaður þegar fimm ára ráðning hans rennur út á  næsta ári, heldur muni ríkisstjórnin koma „sínum manni“ inn,“ segir í Kjarnanum.