„Samhjálp er með töluvert meiri starfsemi en marga grunar, hér eru átta starfstöðvar þar á meðal Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal, sem er elsta meðferðarheimili landsins,“ segir Valdimar Þór Svavarsson nýr framkvæmdastjóri Samhjálpar.

„Það sem fólk þekkir þó eflaust einna best er kaffistofa Samhjálpar í Borgartúni þar sem um 180 einstaklingar koma á dag og þiggja bæði morgunkaffi og meðlæti ásamt heitum mat í hádeginu, alla daga ársins. Margir eru mjög einangraðir og fá þar auk matar bæði samfélag og náungakærleika.

Nú bjóðum við upp á hefðbundinn jólamat, sem landsþekktir kokkar og veitingastaðir aðstoða okkur við, en öllum matnum er aflað í gegnum styrki og stuðning velunnara. Margir styrkja starfið með reglulegum greiðslum en um þessar mundir erum við sérstaklega að bjóða fólki að styrkja jólamáltíðina, sem kostar um 3.500 krónur á gest.“

Þess utan hefur starf Samhjálpar löngum verið styrkt með ýmiss konar viðburðum, t.a.m. Kótilettukvöldum Samhjálpar, jólatónleikum og svo verður haldin sérstök skötuveisla á Þorláksmessu í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu sem allir eru velkomnir í en ágóðinn rennur til Samhjálpar.

„Ég fór sjálfur í gegnum meðferð á sínum tíma eftir skipbrot í mínu lífi og hef verið tólf spora maður í sautján ár síðan. Það var í gegnum þá reynslu og tiltekt í eigin lífi sem áhuginn vaknaði á hinu mannlega, og samhjálpinni sem við þurfum hvert frá öðru, enda fara allir í gegnum erfiðleika í lífinu,“ segir Valdimar Þór.

„Ég fór í kjölfarið í félagsráðgjöf, síðan í sérmenntun í Bandaríkjunum í áfalla- og uppeldisfræðinám kennt við Piu Melody, og hef ég notað þá þekkingu síðustu ár við sjálfstæða félagslega ráðgjöf fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur, þá sérstaklega um meðvirkni og því sem henni tengist, þar á meðal fíknitengdum vanda.

Loks kláraði ég síðastliðinn vetur mastersnám í stjórnun og stefnumótun. Ég var því í raun ekki að leita mér að starfi þegar ég sá framkvæmdastjórastöðuna hér auglýsta en starfið kallaði á mig því það tengist á svo margan hátt því sem ég hef lengi fengist við, að nýta eigin reynslu til að efla og hvetja aðra til dáða.“

Valdimar Þór á fjögur börn og býr á Selfossi. „Eldri börnin, sem ég á með fyrri eiginkonu, eru 22 og 19 ára, en þau yngri, sem ég á með Berglindi Magnúsdóttur ráðgjafa, eru 15 og 9 ára svo þetta er góð dreifing,“ segir Valdimar Þór sem utan þess að sinna fjölskyldunni nýtur sín við útivist í frítímanum. „Í mér er mikið keppnisskap, hef alltaf verið orkumikill, og stundað bæði mótorsport og vélsleðaakstur, göngur og hlaup, auk hjólreiða. Ég á að baki alveg nokkur beinbrot sem tengjast öll ýmiss konar íþróttum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .