Ríkisstjórn Íslands afréð á fundi sínum í dag, að tillögu forsætisráðherra, að ganga til samninga við ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint um að vinna að samningagerð milli gömlu og nýju bankanna undir stjórn fulltrúa íslenskra stjórnvalda.

Verkefnið sem um er að ræða er annarsvegar ráðgjöf vegna þeirra samninga sem þurfa að eiga sér stað milli ríkisins, f.h. nýju bankanna og kröfuhafa gömlu bankanna í tengslum við lokauppgjör og hins vegar nýting sérþekkingar varðandi fyrirkomulag og mögulegar lausnir í tengslum við uppgjörið, en ýmsar leiðir koma þar til greina.

Áður höfðu stjórnvöld boðið fjórum erlendum ráðgjafafyrirtækjum að taka þátt í útboði, þar sem lagt skyldi mat á hvert þeirra gæti best tekið að sér ofangreind verkefni. Tvö þeirra drógu sig í hlé vegna hagsmunatengsla, en auk Hawkpoint mættu fulltrúar Houlihan Lokey til fundar við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og gerðu grein fyrir hugmyndum sínum.