Strætó bs. og BL skrifuðu í dag undir samning um kaup á 20 strætisvögnum af gerðinni Crossway LE frá Iveco Bus, að undangengnu útboði sem VSÓ sá um fyrir Strætó. Kaupverðið er um 690 milljónir króna, en vagnarnir verða afhentir í tvennu lagi, fyrri hlutinn fyrir 1. desember og síðari hlutin í byrjun næsta árs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strætó.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir þetta mikilvægan áfanga í stefnu þeirra um að vera með reglubundna endurnýjun á vagnaflotanum. Hann segir kaupin vera lið í því að yngja flotann upp. Reynir segir þá fá nýrri og tæknilega fullkomnari bíla sem eykur þægindi viðskiptavina þeirra, um leið og þeir skila betri hagkvæmni í rekstri.

Heiðar Sveinsson, framkvæmdstjóri BL, segir að fyrirtækið sé mjög ánægt með samninginn og ber lofsyrði á ferlið. Hann segir sér finnast samskiptin við Strætó hafa verið góð. Það hafi verið unnið faglega að útboðinu alla leið til enda.  Þeir hafa tekið þátt í útboðum í mörg ár og eru mjög ánægðir með þessi faglegu vinnubrögð.