Á morgun hyggjast stjórnvöld í Íran skrifa undir samning við orkufyrirtækin Total SA og kínverska ríkisolíufélagið um uppbyggingu á íranska hluta stærstu gaslindar heims. Um er að ræða samning um South Pars gaslindina, og er hann verðlagður á 4,8 milljarða Bandaríkjadali, það sem jafngildir 497 milljörðum króna.

Samkvæmt drögum af samningnum sem birt voru í nóvember, mun Total stjórna 50,1% af verkefninu, en kínverska fyrirtækið CNPC mun eiga 30% og íranska ríkisolíufélagið Petropars 19,9%. Gaslindir Íran eru taldar þær stærstu í heimi, en BP ályktar þær vera um 33 þúsund milljarðar rúmmetra af gasi, og er þessi fjárfesting sú fyrsta í landinu síðan viðskiptaþvingunum var aflétt.

Total sem staðsett er í París hafði fjárfest í gaslindinni, sem skiptist milli Íran og Qatar en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru samskipti Íran og Qatar nánari en arabaríkin í kring vilja, áður en þvinganirnar neyddu fyrirtækið til að hætta starfsemi þar árið 2009. CNPC hefur hins vegar starfað í Íran alveg síðan 2004, bæði í olíu og gasvinnslu.