Samkeppnisyfirvöld í Búlgaríu greindu frá því á miðvikudaginn að þau hafa samþykkt kaup búlgarska lyfjafyrirtækisins Sopharma á 85% hlut í lyfjadreifingarfyrirtækinu Sanita Trading.

Samkeppnisyfirvöld segja samrunann hafa góð áhrif á samkeppnisumverfið á lyfjamarkaði í Búlgaríu, en markaðurinn einkennist af mörgum smærri fyrirtækjum og sérfræðingar búast við aukinni samþjöppun með væntanlegri innkomu vestrænna lyfjarisa.

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis, sem á í yfirtökuviðræðum við króatíska fyrirtækið Pliva, keypti búlgarska lyfjadreifingarfyrirtækið Higia í fyrra, en Búlgaría var þá annar stærsti markaður fyrirtækisins. Actavis rekur einnig þrjár lyfjaverksmiðjur í landinu.

Sopharma hefur lýst yfir áhuga á að sameina þrjú lyfjafyritæki undir nafninu Sopharma Trading, en félagið á 10% eignarhlut í búlgörsku lyfjadreifingarfyrirtækjunum Kaliman RT og Global Medical, auk þess að eiga 85% hlut í Sanita Trading.

Ef áætlanir Sopharma ganga eftir mun samkeppnin um markaðshlutdeild á lyfjadreifingarmarkaði aukast enn frekar á kostnað Actavis, segja sérfræðingar.

Actavis segir Higia með góða markaðsstöðu á búlgarska markaðnum og fyrirtækið selur lyf til yfir tvö þúsund apóteka, en það sérhæfir sig í dreifingu lyfja til apóteka og sjúkrastofnana. Búist við að tekjur Higia verði á bilinu 90-100 milljónir evra á árinu 2006.