Northern Foods, einn helsti samkeppnisaðili Bakkavarar á Bretlandi, tilkynnti nýlega að félagið hefði í hyggju að loka Trafford Park Bakery sem staðsett er í Manchester, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Með þessari aðgerð hyggjast stjórnendur framfylgja þeirri stefnu að einbeita sér að þeim rekstrareiningum þar sem félagið hefur samkeppnisforskot. Í Trafford Park bakaríinu var framleitt kælt sætabrauð. Tap rekstrar fyrir skatta var um þrjár milljónir punda (398 milljónir króna) á síðasta rekstrarári," segir greiningardeildin.

Bakkavör kaupir bakarí

Hún segir að Bakkavör hafi nýlega fest kaup á Laurens Patisseries og New Primebake en félögin framleiða að hluta sömu vörur og Trafford Park Bakery.

?Bakkavör virðist því vera að fara öfuga leið miðað við helsta samkeppnisaðila sinn. Orkuverð er stöðugt að hækka á Bretlandi og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Því má gera ráð fyrir að framleiðslukostnaður muni hækka og að framlegðin í bakaríum muni lækka samfara því, a.m.k. tímabundið.

Áhugavert verður að fylgjast með þróun framlegðar hjá Bakkavör á komandi misserum en langtímamarkmið félagsins er að halda 12%-14% EBITDA framlegð og gerum við ráð fyrir að það markmið náist," segir greningardeildin.