„Eins og fram er komið opinberlega framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Símanum og öðrum fyrirtækjum í sömu samstæðu, þann 21. apríl sl. Húsleitin var viðamikil enda þurfti eftirlitið að afrita og leita gagna á nokkrum stöðum í húsnæði fyrirtækjanna. Samkeppniseftirlitið þurfti því að fá til liðs við sig nokkra einstaklinga með upplýsingatækniþekkingu til að aðstoða við aðgerðina og leitaði til Þekkingar í því skyni. Umræddir einstaklingar voru starfsmenn Samkeppnis-eftirlitsins á vettvangi og störfuðu samkvæmt fyrirmælum og á ábyrgð þess," segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Í fjölmiðlum í dag kom fram að að Síminn hefði stefnt Samkeppniseftirlitinu fyrir héraðsdóm og krafist þess að öllum gögnum sem aflað var í húsleit hjá Símanum yrði eytt, þar sem starfsmenn keppinautar Símans hefðu annast afritatöku. Við þessu hefur Samkeppniseftirlitið brugðist með fréttatilkynningu.

„Öll aðgerðin fór fram undir stjórn Samkeppniseftirlitsins og þau gögn sem haldlögð voru og afrituð eru vistuð með öruggum hætti hjá Samkeppniseftirlitinu. Umræddir einstaklingar komu hvergi nærri haldlagningu gagna eða efnislegri skoðun tölvugagna heldur fólst hlutverk þeirra einvörðungu í tæknilegri aðstoð við afritun gagna. Málatilbúnaður Símans á því ekki við rök að styðjast," segir í tilkynningunni.