*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 17. júní 2018 13:09

Samningur fyrir hundruð milljóna

Íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki hefur samið um að sjá um fiskveiðieftirlitskerfi Ástralíu, þriðju stærstu lögsögu heims.

Höskuldur Marselíusarson
Kolbeinn Gunnarsson er yfirmaður sjávarútvegssviðs Trackwell
Haraldur Guðjónsson

Með nýjum samningi við Fiskveiðieftirlitsstofnun Ástralíu er íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Trackwell nú komið í þá stöðu að sinna eftirliti með skipaumferð og veiðum á langstærstum hluta Kyrrahafsins, auk stórra hafsvæða í Suður-Íshafinu og Indlandshafi.

Lögsaga Ástralíu sjálf er um 8,2 milljónir ferkílómetrar en með tækni fyrirtækisins verður hægt að fylgjast í rauntíma með ferðum þeirra um sjö þúsund skipa sem eru á ferð innan hennar á hverjum tíma.

Kolbeinn Gunnarsson, yfirmaður sjávarútvegssviðs Trackwell, er viss um að góð reynsla Ástrala af kerfinu í gegnum aðild sína að samstarfsverkefnum á Kyrrahafinu þar sem kerfið er notað hafi leitt til samningsins. Hann segir samninginn við Ástrala hundraða milljóna króna virði fyrir félagið.

Fyrir var félagið með samning við tvær alþjóðlegar stofnanir, annars vegar FFA og hins vegar WCPFC, um rekstur eftirlitskerfa í Kyrrahafinu þar sem Ástralar eru aðilar að. Auk þess að lögsaga ástralska ríkisins nær út á Kyrrahafið hefur ríkið yfirráð yfir og gert samstarfssamninga við ýmsar eyjar á hafsvæðinu.

„Ég tel það víst að það hafi haft áhrif en verkefnin með þessum stofnunum hafa gengið mjög vel, og Ástralía og fleiri þjóðir þarna í kring hafa fengið gögn úr VMS kerfum okkar og svo hafa Ástralar fengið sérstakan aðgang á köflum,“ segir Kolbeinn, en VMS stendur fyrir Vessel Monitoring Systems á enskri tungu.

Keppinautar dregist aftur úr

„Ástralía er aðili að Forum Fisheries Agency, sem er samstarfsverkefni margra Kyrrahafsríkja um rekstur á fiskveiðieftirliti. Þar hafa þeir kynnst lausnum okkar og mátu þeir gæði okkar vöru hátt í útboðinu. Á okkar mælikvarða eru þetta risastórir samningar, þó á mælikvarða risafyrirtækja úti í heimi sé þetta bara skiptimynt, en þeir hlaupa á hundruðum milljóna,“ segir Kolbeinn.

„Í gegnum árin hafa fimm eða kannski sex aðilar verið svolítið virkir í þessum geira, sem er auðvitað mjög sérhæfður og til þess að gera fáir viðskiptavinir, það eru bara þjóðlöndin og nokkrar stofnanir og því ekki margir verið í þessu.

En þetta eru stór og flókin verkefni og þó að hver samningur sé yfirleitt mjög stór þá hafa samkeppnisaðilar okkar kannski verið að skipta um fókus að einhverju leyti eða ekki alveg staðið sig í að viðhalda kerfunum sínum og byggja þau upp og bæta þannig að við erum komnir í fremstu röð þó ég segi sjálfur frá. Þess vegna eru Ástralar og fleiri aðilar að velja okkur og því hefur okkur verið að ganga mjög vel að undanförnu.“

Kolbeinn segir erfitt að leggja nákvæmt mat á stærð nýja samningsins við Ástralíu eða aðra því þó að í grunninn sé um að ræða sama kerfið þurfi að gera ýmsar breytingar út frá sérhæfðum aðstæðum á hverjum stað.

„Samningurinn er í þremur liðum, það er upphafskotnaðurinn við að koma upp kerfinu, síðan eru árleg leyfisgjöld fyrir notkun á kerfinu og svo er kostnaður við að aðlaga kerfið fyrir hvern og einn viðskiptavin en þar er alltaf um að ræða helling af breytingum og viðbótum sem þarf að gera,“ segir Kolbeinn sem segir svona kerfi vera í stöðugri þróun á starfstíma sínum.

„Í tilviki Ástralíu þá voru þeir í fyrsta sinn að sameina kerfi alríkisstjórnarinnar og kerfin sem hvert fylki hefur verið að nota, en þau eru tiltölulega sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Þannig að núna í fyrsta sinn með okkar kerfi þá verða þeir með eitt sameiginlegt kerfi sem notuð eru af öllum aðilum. Það má segja að þetta séu sex eða sjö kerfi núna í einu þar sem hver aðili er með mismunandi aðgang eftir upplýsingum sem þeir þurfa eftir svæðum og skipum.“

Enginn tæknimaður þurft að fara út

Starfsmenn Trackwell hafa verið á ferðinni hinum megin á hnettinum til að halda námskeið fyrir notendur, en sjálfur er Kolbeinn tiltölulega nýkominn frá andfætlingum okkar í einni slíkri ferð.

„Að hitta samstarfsfólk og viðskiptavini augliti til auglits er nauðsynlegt því að mannleg samskipti skipta máli og þau ganga betur þannig heldur en eingöngu í tölvupóstum,“ segir Kolbeinn en hjá fyrirtækinu starfa 28 manns, allir hér á landi.

„Það skrýtna er þó, að núna erum við búin að afhenda þrjú kerfi á þessu svæði á þremur árum og það hefur enginn tæknimaður farið út fyrir landsteinana á Íslandi til þess. Þess þarf ekki vegna þess að allt kerfið er hýst í skýi, en við erum með þjónustu frá bæði Amazon og Microsoft.

Þetta gerir það að verkum að menn stofna bara tölvurnar á netinu má segja, og þá spretta upp vefþjónar og gagnagrunnar og allt þetta dótarí sem hefur þann viðbótarkost að hægt er að stækka og minnka kerfin eftir þörfum. Til að mynda ef skipum fjölgar eða fækkar inni á eftirlitssvæðinu, en alla svona vinnu geta tæknimenn okkar gert úr sætum sínum á skrifstofunni heima á Íslandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.