Öllum fyrirvörum hefur verið aflétt af raforkusölusamningi Landsvirkjunar og PCC BakkaSilicon hf. Raforkusölusamningur fyrirtækjanna er því orðinn fullgildur og bindandi fyrir báða aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju PCC, sem áætlað er að hefji starfsemi á árinu 2017 og framleiði í fyrsta áfanga allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og noti 58 MW af afli. Fyrirvararnir í samningnum snerust meðal annars að áliti eftirlitsstofnunar EFTA á hinum nýja samningi, leyfisveitingum, fjármögnun og flutningi raforkunnar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í tilkynningunni að um sé að ræða merkan áfanga í raforkusölu Landsvirkjunar því nú sé staðfest að PCC bætist í hóp viðskiptavina fyrirtækisins. "Samningurinn er einnig mikilvægur fyrir framtíðaruppbyggingu iðnaðar á Bakka við Húsavík og við erum þess fullviss að kísilmálmframleiðsla á góða framtíðarmöguleika þar sem aðstæður henta iðnaðinum einkar vel,“ segir Hörður í tilkynningunni.