Lækningavörufyrirtækið Kerecis hlýtur Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins í ár. Fyrirtækið var stofnað árið 2009 og hefur nýlega gert samning við bandaríska herinn vegna meðferðarúrræða á sárum.

Roð sem fellur til við roðflettingu á þorskflökum getur í dag grætt sár og jafnvel nýst í ýmiskonar aðgerðir þar sem byggja þarf upp skaðaðan líkamsvef, s.s. eftir brjóstnám eða slys. Roðið er affrumað og ef aðstæður eru réttar endurskapar það stoðvef líkamans. Fyrirtækið Kerecis hefur unnið að þróun þessara lausna allt frá árinu 2009 og eftir er nú að taka sýn fyrstu skref sem sölu- og markaðsfyrirtæki.

Fyrirtækið var stofnað af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, föður hans Sigurjóni N. Ólafssyni efnafræðingi og fyrrverandi vinnufélögunum Baldri Tuma Baldurssyni lækni, Hilmari Kjartanssyni lækni og Ernest Kenney verkfræðingi ásamt lögfræðingnum Baldvini Birni Haraldssyni. Guðmundur hefur starfað í lækningavörugeiranum um árabil, fyrst hjá Össuri og síðar hjá bandaríska/nýsjálenska fyrirtækinu Keraplast.

Gæti verið stórt verkefni

Nýlega gerði Kerecis samning við bandaríska herinn vegna úrræða á meðhöndlun á bráðaáverkum hjá alvarlega slösuðum hermönnum. Verkefnið er fjármagnað af rannsóknamiðstöð bandaríska sjóhersins og ljóst að ef vel gengur getur verkefnið fært Kerecis miklar tekjur á næstu árum. Verkefnið er þó á byrjunarstigi.

„Við höfum verið að einblína á þessi þrálátu sár og birt vísindagreinar í vísindatímaritum þar sem fram kemur að tæknin okkar er betri en önnur úrræði fyrir þrálát sár á markaðnum í dag. Mér finnst líklegt að herinn hafi haft samband við okkur vegna þessara greina. Algengasti dauðdagi bandarískra hermanna eru höfuðáverkar, þar á eftir koma áverkar vegna bráðasára. Við gerum fyrst forprófanir og ef þetta gengur vel upp þá gæti þetta verið mjög stórt verkefni,“ segir Guðmundur Fertram.

Guðmundur segir þó of snemmt að segja til um hversu miklar tekjur þetta gætu þýtt fyrir fyrirtækið. „Allavega er mjög gott að eiga samstarf við þá með þessa prófunarvinnu. Það er heilmikið eftir, fyrst forprófanir og svo prófunarverkefni sem þurfa gríðarlega mikla fjármuni. Þegar það er búið er farið að tala um innkaup og kaup á vörum en það geta liðið nokkur ár þangað til að því kemur.“

Guðmundur Fertram er í ítarlegu viðtali í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .