Hin alþjóðlega lánsfjárkreppa á fjármálamörkuðum ógnar stöðugleika norska og sænska bankakerfisins, en fram til þessa hafa norrænir bankar orðið fyrir litlum skakkaföllum vegna umrótsins á mörkuðum. Þetta kemur fram í ársfjórðungslegum skýrslum seðlabanka Noregs og Svíþjóðar um fjármálastöðugleika.

Í frétt Financial Times segir að nokkurrar nýbreytni hafi gætt í skýrslunum. Hin hefðbundna samnorræna hófsemi í orðalagi var látin víkja og í staðinn lýsa forráðamenn bankanna yfir áhyggjum af þeim hugsanlegu afleiðingum sem lánsfjárkreppan gæti haft fyrir bankakerfi landanna.

„Vandræðin á fjármálamörkuðum ná nú til fleiri eignaflokka, markaða og markaðsaðila. Óvissan á mörkuðum mun líklega vara lengi. Það er ekki hægt að útiloka það að ástandið eigi eftir að versna,“ segir Stefan Ingves, seðlabankastjóri Svíþjóðar.

Skýrslan endurspeglar þá staðreynd að lánsfjárkreppan lætur engan ósnortinn – burtséð frá því hvort um er að ræða heilbrigð fjármálakerfi, eins og það sænska og norska, með vel fjármagnaðar bankastofnanir sem hafa ekki fjárfest í skuldabréfavafningum með tengsl við bandaríska undirmálslánamarkaðinn.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .